Þeir snæddu samt áfram döner


Þessi grein birtist einhvern tímann í Mogga árið 2008. Á þeim tíma átti sér Evrópumeistaramótið í knattspyrnu stað.

Þýskar pylsur og súrkál eru ekki lengur í framvarðarsveit mettra maga Þýskalands. Mest seldi skyndibiti Þýskalands á nefnilega rætur sínar að rekja til Tyrklands. Þetta er auðvitað hinn einkar frambærilegi, saðsami og ódýri matur döner kebap. Var réttur þessi einmitt fundinn upp af tyrkneskum innflytjendum í Berlín á áttunda áratug síðustu aldar og hefir æ síðan fest sig meir og meir í sessi í Þýskalandi og raunar um Evrópu alla. Mætti segja, þrátt fyrir öll gamalt-kjöt-hneykslin, að dönerinn sé um margt táknmynd sambúðar þýskra og tyrkneskra í landinu. Staður þar sem mismunandi skoðanir falla milli þilja í setningunni: „hvaða sósu?“

 

Hverfum nú til miðvikudagsins 25. júní í Berlín. Umhverfið er litað fjórum litum: hvítum, gulum, rauðum og svörtum. Meiri fólksmergð en vanalega á götum úti. Augljós spenna liggur í loftinu. Rafmögnuð spenna. Ástæðan fyrir því? Knattspyrnuleikurinn milli Þýskalands og Tyrklands mun fara fram innan nokkurra stunda. Og því fer fjarri að öll spennan sé Þýskalands megin. Fjöldinn allur af borgarbúum hefir átt svefnlausar nætur af áhyggjum yfir gegni hálf asísku strákanna í rauðu peysunum.

 

Því líkt og mörgum er kunnugt um samanstendur langsamlega stærsti hluti innflytjendafólks Þýskalands frá Tyrklandi. Raunar er það svo að sumir hverjir borgarhlutanna eru kenndir við Tyrki og teljast um margt nokkurs konar ríki í ríkinu, kimi eða hvað það nú heitir. Ekki eru allir þó á eitt sáttir með veru þeirra og atferli innan hins fornfræga Prússlands. Oftast á það við um snoðklipptan félagsmálapakka, sem telur sig upprunalegan sverð og skjöld landsins, þó ekki sé sú skilgreining algild.

 

Þess vegna voru uppi ákveðnar áhyggjur um að hlutirnir gætu farið úr böndunum fyrir og eftir þennan þýðingarmikla leik. Og síðan ljóst var að þessar þjóðir myndu mætast í undanúrslitum Evrópumótsins var sínkt og heilagt hamrað á friðarboðskap í fjölmiðlum og í samfélaginu almennt: elskið þið friðinn, strjúkið þið kviðinn!

 

Og viti menn! Ótrúlegt nokk mannskepnunni er ekki allsvarnað. Miðvikurdagurinn 25. júní fór að nær öllu leyti friðsamlega fram (ja, fyrir utan vesen i Dresden þar sem döner búllur voru skemmdar). Á mörgum stöðum Berlínar og raunar um land allt fagnaði og skemmti sér, meira að segja, þýskt og tyrkneskt fótboltaáhugafólk í sameiningu, veifandi samtímis þjóðfánum sínum. Flestir klæddust svo Tyrkir hvítri treyju dvalarlands, eða heimalands síns, á sunnudeginum var og studdu Schweinsteiger og félaga til dáða...

 

Nú hefir því verið fleygt fram að knattspyrnan eigi það til að vera ópíum fólksins. Enda á fólk það til að gera meira en að gleyma sér í þeirri sæluvímu sem boltinn getur skapað eftir góðan sigur síns fólks, ja, eða bitran ósigur. Það mætti jafnvel ganga svo langt að segja að tuðrusparkið hafi í sér ígildi trúarbragða; ekki íþróttinn sem slík auðvitað, heldur trú aðdáendanna. Enda hafa í gegnum tíðina ótalmargar óendanlega heimskulegar athafnir og almenn fúlmennska verið tengd nafni átrúnaðar sem og fótboltans.

 

Vissulega er Guð og Fótbolti alvarlegt „stöff.“ Því var það þess meira ánægjulegt og gerði sitt til að auka tiltrú þessa pennahaldara á mannfólkinu hve allt gekk vel fyrir sig. Ég meina fyrst enginn hætti að kaupa sér döner getur þessi sambúð vart verið svo slæm?


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband