Að drepa eða ekki drepa...hval

AUÐVITAÐ hefir verið fjallað um hvalveiðarnar hér í þýskum fjölmiðlum og það þarf ekki að koma á óvart að sú umfjöllun hefir verið af neikvæðum toga. Undirritaður hefir að vísu ekki séð eða heyrt Íslandi líkt við Norður-Kóreu, líkt og hvalurinn Paul Watson hefir gert, en engu að síður

má ljóst vera að hvalveiðarnar eru ekki settar í samhengi við álfa-krútt, flotta og sérstaka Bjarkar-lega tónlist eða heildrænt náttúrlegt samhengi; íslenska veiðimannasamfélagið. Þegar kemur að veiðunum gleymist þetta og land og þjóð verður ekkert annað en vestrænt nútímasamfélag, hluti af samfélagi þjóðanna, sem gengur gegn vilja félaga sinna í heimsþorpinu, hvort sem slíkar ásakanir eru réttmætar eður ei.

Nú eru líklega ekki margir Íslendingar á móti hvalveiðum sem slíkum (samkvæmt heimasíðu sjávarútvegsráðuneytisins eru 3/4 á aldrinum 16–75 ára hlynntir þeim), en sennilegt verður að teljast að einhverjir setji samt sem áður spurningarmerki við þessar veiðar, sem brustu á eins og þruma úr heiðskíru lofti, og velti fyrir sér hvaða tilgangi þær eigi að þjóna. Eru þær að einhverju leyti efnahagslega mikilvægar? Er hvalurinn að éta allan fiskinn okkar svo nauðsynlegt sé að sýna honum hvar Davíð keypti ölið; stendur okkur ógn af hvalnum? Eru íslensk yfirvöld komin með nóg af þýlyndi við erlendar stórþjóðir og vilja með þessu móti færa sig úr hópi viljugra yfir í hóp þeirra sem rétta þeim stóru millifingurinn?

Er með öðrum orðum verið að sýna að við Íslendingar séum færir um að valda óróa í heimsþorpinu ekkert síður en Bretland og Bandaríkin, Írak, Íran og Norður-Kórea? Landið fær allavega athygli og umfjöllun og einhvern tímann heyrði ég því fleygt fram að það væri ekkert til sem héti slæm umfjöllun, bara umfjöllun. Alltént hefir landið borið á góma í vel flestum fréttatímum og prentmiðlum hér (auk vefsíðna dagblaðanna) og rataði Einar Kristinn Guðfinnsson, meira að segja, á forsíðu Berliner Zeitung (ekki sem aðalfrétt þó) 24. október. Fólk veit af okkur og þeir sem láta sig þetta einhverju varða eru á móti okkur. Við erum allavega óþæg.

Að sjálfsögðu sér fólk flísina, ekki bjálkann, samanber þær ómannúðlegu (hef aldrei almennilega skilið hvað það kemur dýraáti við) aðferðir sem allajafna eru brúkaðar við

matvælaframleiðslu á heimsvísu og þá líkast til hvað mest í þeim löndum sem hvað harðast mótmæla hvalveiðunum. Svo virðist líka sem sumar ríkisstjórnir meti mannslíf minna heldur en hvalslíf, enda er mannskepnan svo sem ekki í bráðri útrýmingarhættu. Það er og óneitanlega undarlegt (eða ekki) að hvalveiðiþjóð á borð við Bandaríkin sé að benda...

En það bætir víst ekki böl að benda á annað þótt auðvitað sé yfirhöfuð spurning hvort um böl sé að ræða. Auðvitað megum við veiða okkar hval og þetta er nú enginn fjöldi sem skotinn er. Að auki virðist vera nóg af hval við Íslandsstrendur og engin hætta á að það breytist þótt nokkrar skepnur séu skotnar. Og þótt efnahagslegur ávinningur sé í besta falli umdeilanlegur er ef til vill ekki allskostar rétt að meta allt út frá hagfræðilíkönum. Hugsanlega er gildi að finna í öðru en peningum og hagvexti. Þannig getur hugsast að hvalveiðar sem slíkar hafi fagurfræðilegt gildi. Og vel að merkja er eitt mesta þrekvirki amerískrar bókmenntasögu, Moby Dick, sprottið upp úr jarðvegi hvalveiða. Hefði það nú vart verið raunin í "horfa á ekki drepa samfélagi." Hvað væri svo til dæmis Hemmingway ef mannskepnan hefði ekki fundið upp á því að drepa?

Margir Íslendingar eiga og góðar minningar frá hvalstöðinni. Það var fastur hluti af ferðalögum um landið, allavega hvað undirritaðan varðar, að koma við í hvalstöðinni og sjá hval dreginn á land og gert að honum. Í því gat maður bæði skynjað smæð og yfirburði þeirrar tegundar sem maður tilheyrir. Maðurinn er smár í samanburði við skepnuna sem slíka, en ekkert er honum ofviða; hann getur yfirbugað allt...

En auðvitað samanstendur mannkynið, eða sá hluti þess sem hefir tök á að velta fyrir sér hvalveiðum, fremur af aðdáendum þess að horfa á hval fremur en að snæða, þannig að sennilega væri skynsamlegt að hlýða alþjóðaálitinu. Flestir hafa svo einkar tilfinningalega afstöðu þegar kemur að andstöðu gegn hvaldrápum, og líkt og raunin er með slíka afstöðu kemur hún að ofan og eru því litlar líkur á að nokkur rök bíti á og breyti henni. Kannski er þetta ekkert svo sniðugt og spurning hvort að það sé ekki bara betra að vera álfa-krútt heldur en hvalamorðingi. Ekki skal þó úr því skorið hér hvor leiðin er vænlegri til ávinnings íslenskri þjóð til heilla eða leitast við að svara þeim spurningum sem vakna samhliða veiðunum. Víst er þó að hægt er að vera mjög tilfinninganæmur þegar kemur að því að drepa eða ekki drepa.

Höfundur er bókmenntafræðingur.


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband